BIRKIR Ingibjartsson
Arkitekt, úrbanisti og varaborgarfulltrúi - áhugamaður um Reykjavík og meiri borg.
Nú eru kosningar til borgarstjórnar handan við hornið og spennandi vor framundan. Ég hef áhuga á að taka þátt í baráttunni með virkum hætti og óska eftir þínum stuðningi í flokksvali Samfylkingarinnar sem fram fer 24. janúar næstkomandi.
Stefni ég á 3-4. sæti listans.
Það er ekkert launungarmál að það er áhugi minn á þróun og vexti borgarinnar sem dregur mig að vettvangi stjórnmálanna. Nú sem endranær eru stór verkefni til skoðunar og vinnslu sem munu marka með skýrum hætti hvernig borgarsamfélag Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins alls mun þróast næstu tvo til þrjá áratugina. Samfylkingin í Reykjavík hefur verið leiðandi afl í því samtali síðustu 10-15 árin og vil ég eiga þátt í því að svo verði áfram.
Borgarlínan og önnur verkefni Samgöngusáttmálans, almenn gæði byggðar og nærumhverfis okkar, bættir göngu- og hjólastígar, Sundabraut, næstu skref í uppbyggingu Vatnsmýrarinnar, húsnæðisuppbygging með félagslegu bakbeini og öflugir sjálfstæðir borgarhlutar eru meðal þeirra málefna sem verða í deiglunni á næstu árum og eru allt mál þar sem ég tel að mín faglega reynsla og þekking geti hjálpað til við að laða fram þau tækifæri sem eru staðar.
Ég hef síðustu fjögur ár verið varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar samhliða því að vera sjálfstætt starfandi arkitekt. Það hefur verið dýrmæt reynsla að fá innsýn inn í gangverk borgarkerfisins frá sjónarhóli stjórnmálanna en nú óska ég eftir stuðningi þínum til að fá tækifæri til að verða virkari þátttakandi í að auðvelda hið daglega líf borgarbúa og móta framtíð Reykjavíkur.
Með baráttukveðju
Birkir